Flott Panamasigling

Það var mikil tilhlökkun í hópnum sem flaug frá Keflavíkurflugvelli síðdegis 11. febrúar 2020 og var á leiðinni í siglingu um

Panamaskurðinn með glæsiskipinu Joy á vegum umboðsaðila NCL (Norwegian Cruise Line).

Fararstjóri var Marta Magdalena Niebieszczanska, sem á tímabili fékk „auknefnið“ Martida og held ég að ég tali fyrir hönd okkar ferðafélaganna að hún stóð sig með miklum sóma í hvívetna.

Í Orlando gerðum við okkur ýmislegt til skemmtunar og Marta hafði pantað rútu og fórum við í skemmtilega og fróðlega skoðunarferð um borgina.

Að morgni 14. febrúar ókum við til Miami og fórum um borð í Joy og komum okkur fyrir í klefum okkar. Eftir stuttan kynningarfund með Mörtu borðaði svo hópurinn saman á Manhattan veitingastaðnum.

Fyrsti viðkomustaður var einkaeyja NCL, Great Stirrup Key, en síðan lá leiðin til Kartagena í Kólumbíu  ….og hitinn þar fór í 35° C og rakinn mjög mikill.

Dagurinn sem fór í „siglinguna“ um Panamaskurðinn er mjög eftirminnilegur, því þetta mannvirki er alveg stórkostlegt á alla mælikvarða. Flestir fylgdust með því er við fórum í þrepin þrjú og síðan siglinguna á vatninu og niður hinum megin, í Kyrrahafið áleiðis til Kosta Ríka.

Áfangastaðirnir komu svo hver á fætur öðrum Puerto Quetzal í Guatemala, Mazatlan, Puerto Vallarta og Cabo San Lucas í Mexikó. Alls staðar fórum við í land og skoðuðum okkur um, en laugardaginn 29. febrúar, hlaupársdag vorum við á siglingu til Los Angeles og komum til hafnar í morgunsárið.

Um borð í Joy eru nánast „allar heimsins lystisemdir“, veitingastaðir, leikhús og margt annað sem hugurinn girnist og nýttu ferðafélagarnir þá.

Gistum á The LA grand hotel downtown og eins og í Orlando hafði Marta skipulagt skoðunarferð, sem var afar vel heppnuð, þar sem við gengum meðal annars upp tröppurnar þar sem Oscarsverðlaunin eru afhent.

Heim var svo flogið frá Los Angeles (LAX) um Seattle og heim til Íslands og má segja að við sluppum heim fyrir covid-19 faraldurinn.

Kærar þakkir til allra ferðafélaganna,

Jenna og Ágúst.