Sæll Skúli og TAKK FYRIR SÍÐAST!
Við fórum með umboðsaðila Norwegian Cruise Line í siglingu um Karabíska hafið um síðustu páska. (2016).
Þetta var okkar fyrsta sigling. Ferðin var í alla staði dásamleg og stóð svo sannarlega undir væntingum. Hótelið í Orlando er gott og frábærlega staðsett og skipið maður – SKIPIÐ! Þar vorum við svo sannarlega á 5 stjörnu fljótandi hóteli. Klefinn passleg stór og vel útbúinn og ekki skemmdu svalirnar. Allur matur mjög góður og hægt að borða hreinlega allan sólarhringinn. Hreinlætið um borð til algjörrar fyrirmyndar. Virkilega fært tónlistarfólk og skemmtikraftar. Hægt að velja á milli staða um allt skip hvort sem maður vildi rólegheit eða stuð. Dagskrá allan daginn ef maður vildi ekki liggja í sólbaði og lesa bók. Góðar upplýsingar um allt skip um það hvað væri um að vera. Börn og unglingar höfðu í nógu að snúast. Starfsfólk skipsins stendur þó upp úr sem yfirmáta glaðlegt, vinalegt og hjálpsamt. Yfirmenn voru sýnilegir og andinn í skipinu var eitthvað svo samheldinn og góður. Það eina sem við sáum neikvætt var spilavítið sem er stórt.
Við fórum í eina skipulagða ferð. Það var á Jamaica. Þar fórum við í Bob Marley ferð í gamalli rútu. Það var upplifun sem við hefðum aldrei viljað missa af.
Skúli Unnar Sveinsson var fararstjóri í þessari ferð. Maðurinn er hreint út sagt dásamlegur. Hann var í tölvupóstsambandi frá því um áramót og þar til við fórum út. Við vorum því gríðarlega vel undirbúin og ekkert kom á óvart. Þegar út kom fengum við áframhaldandi góðar upplýsingar um það sem var á döfinni og einhvernvegin var eins og maðurinn gæti “klónað sig” því hann var alltaf til staðar.
Við hikum ekki við að mæla með þessari ferð og þessu skipi – en við mundum fara hvert sem er með Skúla!
Gunnhildur Gylfadóttir og Hjálmar Herbertsson