Skipið, Norwegian Jade, var talsvert stærra og stórkostlegra en við höfðum gert okkur grein fyrir af myndum. Við vorum í herbergi með svölum, sem gerði líklega talsverðan mun, bæði opnara og það munaði um að hafa útsýni frá svölunum, auk fersks lofts og sólskins. Það tók alllangan tíma að rata um skipið, en það gerði ferðina enn skemmtilegri að vera að uppgötva nýja staði alla ferðina. Við urðum örsjaldan var við hreyfingu vegna öldugangs, örlítil hliðarhreyfing kannski tvisvar eða þrisvar alla ferðina.
Þjónustan var frábær og alveg sérstök. Þetta alþjóðlega starfslið var augljóslega mjög vel þjálfað, alúðlegt, alltaf með bros á vör og ávallt reiðubúið að rétta hjálparhönd. Þessi framkoma og vafalaust jákvætt hugarfar skapaði mjög hlýlegt og ánægjulegt andrúmsloft. Við kynntumst vel ungum þjónum sem sáu um herbergið okkar og ofan á allt annað komu þeir okkur á óvart með því að móta origami-skúlptúra úr handklæðunum okkar! Hrein listaverk!
Ferðin sjálf var mjög vel skipulögð og boðið upp á marga valmöguleika á ferðum á viðkomustöðunum. Af öllum þeim stöðum þar sme komi við eins og Corfu, Katakolon (þar sem Olympíuleikarnir hófust á sínum tíma) Mykene og Santorini, þá þótti okkur sá síðastnefni vera toppurinn. Hinir staðirnir voru líka að sjálfsögðu afar merkilegir hver á sinn hátt og ómetanlegt að koma á slíkar söguslóðir.
Farastjórinn stóð sig með mikilli prýði, á sér bersýnilega mikla og góða reynslu að baki, vel skipulagður á fyrirhafnarlausan hátt og ekki sakaði skemmtilegur húmor!
Mælum eindregið með ferðum með Norwegian Jade.
Halldór og Susan Haraldsson